Ný lög um ákveðið hlutfall  endurnýjanlegra orkugjafa í bílum sem Alþingi samþykkt í mars mun valda því að innkaupsverð á eldsneyti til landsins mun hækka, neytendur þurfi að greiða meira fyrir lakara eldsneyti og ríkissjóður verða af um 800 milljóna króna tekjum á næsta ári. Þetta er mat efnafræðingsins Glúms Björnssonar hjá efnarannsóknarstofunni Fjölveri.

Glúmur var með erindi um lögin á fundi Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Bílgreinasambandsins og nýsköpunarfyrirtækisins Carbon Recycling Iceland seint í október síðastliðnum.

Dýrara en lélegra eldsneyti

Glúmur sagði í erindi sínu m.a að lögin, sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram í febrúar síðastliðnum, hafi verið samþykkt án umræðna nóttina fyrir þingslit í mars síðastliðnum. Þar er krafist að 3,5% eldsneytis til samgangna verði „endurnýjanleg“ á næsta ári og svo 5% árið 2015. Þetta mun að mati Glúms leiða til þess að kostnaður muni aukast við flutning, geymslu og íblöndun, endurnýjanlega eldsneytið muni hafa lægra orkuinnihald, farið verði að brenna innfluttum matvælum í bílum hér á landi og óvíst verði um umhverfislegan ávinning.

Glúmur skrifar í minnisblaði sínu um málið:

„Lögin eru sett með vísun í tilskipun ESB 2009/28/EB um að hlutfall svonefnds endurnýjanlegs eldsneytis til samgangna skuli komið í 10% árið 2020 sem er hluti af heildarmarkmiði ESB um að hlutfall endurnýjanlegrar orku verði komið í 20% það ár. Hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi er hins vegar þegar um 75% sem er langt umfram 20% meginmarkmið ESB. Ekkert í tilskipun ESB bendir til að Íslendingar hafi þurft að aðhafast í þessum efnum fyrr en í fyrsta lagi árið 2020 og sú spurning hlýtur einnig að vakna hvort tilskipun ESB geti í raun átt við hér á landi þar sem heildarmarkmiðinu um 20% er fyrir margt löngu náð. Ef lög þessi frá í vor fá að standa óbreytt neyðast íslenskir söluaðilar eldsneytis að öllum líkindum til að hefja innflutning á jurtaolíu til íblöndunar í dieselolíu og etanóli (unnið úr korni) til íblöndunar í bensín. Aukið umstang við flutning, birgðahald, gæðaeftirlit og eldvarnir og kostnaður við innkaup mun að líkindum leiða til hærra útsöluverðs á eldsneyti. [...] Þetta þýðir að íslenskir bíleigendur munu fá lakara eldsneyti á hærra innkaupsverði en nú er. Þeir munu þurfa að fara fleiri ferðir á bensínstöðvar en áður. Ekki er ljóst hvernig það má vera til hagsbóta fyrir umhverfið að eldsneytiseyðsla aukist í bílum landsmanna. Það dugir skammt að kalla hlutina „sjálfbæra“ og „endurnýjanlega“ í lögum þegar veruleikinn er annar.“

Lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi