Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemdir við það í dag að svör oddvita ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta væru mjög misvísandi. Árni Páll sagðist, í fyrirspurnartíma á Alþingi i morgun, hafa reynt að inna Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra eftir skýrum svörum. Honum hafi ekki orðið ágengt í því efni.

Bjarni Benediktsson hafi síðan sagt að ef hægt væri að stilla saman væntingar aðila, erlendra kröfuhafa og íslenskra stjórnvalda, geti verið hægt að ná lausn á sex til níu mánuðum. Sigmundur Davíð hafi hins vegar sagt, samkvæmt skilningi Árna Páls, að ekki væri ætlunin að eiga neitt samtal við kröfuhafa um þetta mál.

„Með hvaða hætti eiga væntingar að færast nær hvor öðrum ef ekki koma til samræður?“ spurði Árni Páll Árnason. Hann spurði hvernig Bjarni Benediktsson sæi framhaldið fyrir sér. Með hvaða hætti yrði tekið á hugmyndum erlendra kröfuhafa ef þær koma fram.