„Ólafur Ragnar er með flott göngulag og engin vandræði með hendurnar en Pútín ruggar of mikið. Ef ég gæfi þeim  einkunn, þá fengi Ólafur 10, Obama 9,5 og Pútín 6,3,“ segir danskennarinn Heiðar Ástvaldsson. Hann skrifar grein í Morgunblaðinu í dag sem fjallar um fyrirhugaðan búferlaflutning sinn úr Reykjavík yfir í Kópavog og væntanlega ferð til Kúbu en þar hyggst hann læra spænsku og dans.

Eins og fram kom Viðskiptablaðinu í síðustu viku fagnar Heiðar Ástvaldsson 77 ára afmæli nú í október. Hann lokaði dansskóla sínum í fyrra og hefur ekki kennt dans í vetur fyrir utan að kenna börnum við Kópavogsskóla.

Fylgis með göngulagi fólks

Heiðar segist í greininni hafa gaman af að horfa á fólk. Það hafi hann gert víða, m.a. í London, París Moskvu, Instanbúl, Kaíró og Kiev og fleiri borgum. Laugavegurinn er hins vegar númer eitt i hans huga og hefur hann sérstaklega gaman af því að fylgjast með misjöfnu göngulagi fólks þar.

Hann segir um göngulag þjóðarleiðtoganna þriggja:

„Hugsum okkur að ég mætti þeim Obama, Ólafi Ragnari og Pútín gangandi niður Laugaveginn, þá myndi ég sjálfsagt segja við sjálfan mig: „Það er eins gott að Pútín er ekki í miðjunni, því hann ruggar svo mikið.“ Obama hefur mjög fallegt göngulag, þarf aðeins að laga hendurnar þegar hann labbar niður stigann úr þotunni sinni.“