Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir menn hafa ólíkan skilning á því hvað sé fjárfestingarbanki og rugli hugtakinu oft saman við fjárfestingarfélag. Þetta kom fram á uppgjörsfundi sem haldinn var í höfuðstöðvum bankans rétt fyrir hádegi.

Þetta torveldi oft umræðu um hvort æskilegt sé að aðskiljia starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka, en þess má geta að átta stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt fram frumvarp um málið.

Munurinn á þessu tvennu liggur í því að fjárfestingarfélag er sjálft að fjárfesta en fjárfestingarbanki aðstoðar viðskiptavini sína við að afla sér fjármagns til að þeir fjárfest.

Höskuldur sagði að menn gæfu mismunandi svör þegar þeir væru spurðir um starfsemi fjárfestingarbanka og líkti umræðunni við umfjöllun um samfélagsbanka, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði fyrir stuttu að hann hefði orðið þess var að menn leggi ólíkan skilning í hvað sé átt við með samfélagsbanka.

Ekki hlynntur aðskilnaði

Aðspurður segist Höskuldur að hann sé ekki hlynntur aðskilnaði bankastarfseminnar en Stefán Pétursson framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans tók fram að alhliða bankastarfsemi hefði sýnt sig sem áhættuminni starfsemi, en hann vitnaði sérstaklega í reynslu Svíþjóðar í þeim efnum.

Höskuldur segir að umræðan um aðskilnað banka erlendis sé einskorðuð við Lundúnir og New York. Þá sé umræðan einnig bundin við allra stærstu alþjóðlegu bankana.