Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að íslensk olíufélög bíði yfirleitt þar til eitthvert hinna félaganna lækki olíuverð þótt fullt tilefni gæti hafa verið til lækkana um nokkra hríð. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Þar er greint frá því að í gær hafði verð á bensíni haldist óbreytt frá 9. júní, en á sama tímabili hefur verð á Brent-hráolíu lækkað um 8,5%. Þá hafði verið á dísilolíu haldist óbreytt frá 20. júní. Skeljungur lækkaði hins vegar verð sitt á bensíni um fjórar krónur og dísilolíu um sex krónur í gær.

„Aðhaldið virðist ekki alveg koma sem skyldi í innbyrðis baráttu milli félaganna. Þetta er auðvitað fákeppnismarkaður svo aðhaldið þarf stundum að koma utan frá,“ segir Runólfur í samtali við Fréttablaðið.