Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádí-Arabíu, segir ástæðu þess að olíuverð hefur lækkað um 40% frá sumri vera vegna misvísandi upplýsinga og getgátna sem ekki eigi sér stoð í raunveruleikanum. BBC News greinir frá þessu.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið hríðlækkandi frá því í sumar og fyrir helgi var verð á tunnu komið niður fyrir 60 bandaríkjadali. Verðið hefur hins vegar hækkað örlítið nú í morgun og kostar tunnan af Brent Norðursjávarolíu nú 62 dali.

Fulltrúar aðildarríkja Opec hittust á fundi í síðasta mánuði þar sem þeir ákváðu að aðhafast ekkert vegna lækkandi verðs, en búist hafði verið því að þeir myndu draga úr framleiðslu til þess að ná verðinu aftur upp. Hefur því verið haldið fram að ákvörðun Opec tengist því að bola endurnýjanlegum orkugjöfum af markaðnum eða pólitískum markmiðum sem felist í því að ná Rússlandi af markaðnum. Ali al-Naimi vísar slíkum hugrenningum hins vegar algjörlega á bug.