OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, munu ekki samþykkja framleiðslusamdrátt á næsta fundi samtakanna síðar í þessum mánuði, að því er Bloomberg hefur eftir olíumálaráðherra Kúvæt, Ali Al-Omair. Hann segir jafnframt að olíuverð muni ná jafnvægi þegar markaðurinn hefur tekið við því umframframboði sem sé í boði nú.

Fundur OPEC fer fram þann 27. nóvember næstkomandi og verður magn framleiddrar olíu meðal umræðuefna. OPEC ríkin framleiða um 40% af þeirri olíu sem notuð er í heiminum í dag og framleiða um 30 milljónir fata af olíu daglega.

Olíuverð hefur lækkað skarpt undanfarna mánuði, m.a. vegna aukinnar framleiðslu í Bandaríkjunum og vegna minnkandi hagvaxtar í Evrópu og Bandaríkjunum. Líbýa, Venesúela og Ekvador hafa viljað draga úr framleiðslu á meðan Sádí-Arabía og Kúvæt hafa staðið í veginum fyrir slíkum samdrætti.

Ekki eru þó allir vissir um að Al-Omair hafi rétt fyrir sér og hafa bankarnir BNP Paribas, Societe Generale og UBS spáð því að á fundinum verði ákveðið að minnka framleiðslu um allt að 1,5 milljónir fata á dag.