OPEC ríkin hafa tapað um 700 milljörðum dala vegna lækkunar á olíuverði undanfarnar vikur.

Þetta sagði Chakib Khelil, forseti OPEC í viðtali í gær en olíuverð hefur nú lækkað um 60% frá því í sumar þegar tunnan af hráolíu kostaði 147 Bandaríkjadali.

Að sögn BBC kemur ekki fram í viðtalinu hvað olíuverð hafi hækkað mikið og á hvaða tíma fram að því.

Í viðtali við algeríska blaðið El Khabar, segir Khehil að engin ákvörðun verði tekin í þessum mánuði en talið er að OPEC ríkin muni draga lítillega úr framleiðslu sinni til að hækka verðið á nýjan leik.

Næsti fundur OPEC ríkja er áætlaður þann 17. desember næstkomandi en þar verða teknar ákvarðanir um framleiðslu ríkjanna.

Ekki er nema mánuður síðan ríkin, sem stjórna um 40% af olíubirgðum heimsins, samþykktu að draga úr framleiðslu um 1,5 milljón tunna á dag.

Tunnan af hráolíu kostar nú 54,47 dali á utanþingsmarkaði í New York en í Lundúnum er tunnan af Brent olíu að fara á 51,84 dali.