Óvissan tengd orkuöflun jarðvarmavirkjana á borð við Hellisheiðarvirkjun sýnir að óskynsamlegt er að útiloka vatnsaflskosti í rammaáætlun, að sögn Jóns Gunnarssonar, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis. Fjallað var um virkjun Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði á sameiginlegum fundi atvinnuvega- og umhverfis- og samgöngunefndar þingsins í gær.

Fyrir mánuði sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sem var á meðal gesta á fundi nefndanna í gær, að árleg rýrnun orkuvinnslusvæðsins á Hellisheiði nemi 2,3% og afköst virkjunarinnar því minni en stefnt var að, 270 til 280 MW en ekki 303 MW eins og rætt hafi verið um.

Á fundinum í gær kom m.a. fram að OR áformi að leggja hitaveitulögn úr borholu í Hverahíð á Hellisheiði í stað þess að reisa þar aðra virkjun. Það sé bæði hagkvæmara og muni auka afköst virkjunarinnar umtalsvert. Þá er stefnt að því að draga á úr sjónmengun og mun lögnin af þeim sökum liggja að hluta neðanjarðar, m.a. við vegstæði, til Hellisheiðarvirkjunar. Ekki liggur fyrir hvenær farið verður út í framkvæmdina.

Jón segir í samtali við vb.is hugsanlegt að hitaveitulögnin þurfi ekki að fara í umhverfismat.