*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 17. júlí 2017 14:05

Segir óveðurskýin enn til staðar

Forstjóri Blackrock sér fram á minni hagvöxt í Bandaríkjunum heldur en spár gera ráð fyrir.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Larry Fink, forstjóri BlackRock, stærsta eignastýringarfyrirtækis heims segir að óveðurský séu enn til staðar í hagkerfi Bandaríkjanna. Þetta sagði hann í viðtali við Bloomberg fyrr í dag. Sagði hann að hagvöxtur í Bandaríkjunum yrði lægri en búist væri við en Blackrock spáir því að hagvöxtur í landinu verði 2,4% á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar gerir spá Bloomberg ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,8% á sama tímabili. 

Segir Fink að þrátt fyrir góða afkomu fyrirtækja þá hafi vöxtur í launum venjulegs fólks ekki fylgt í kjölfarið. Lagði hann áherslu á að markaðsáhætta væri til staðar vegna getu stjórnvalda til að koma fram með umbætur. „Munum við sjá breytingar á skattkerfinu eða ekki?"

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fink segir að hann hafi áhyggjur af stöðu mála í Bandaríkjunum. Í maí síðastliðnum sagði hann að fjármálamarkaðir vestanhafs væru búnir að ná hámarki sínu og að fjárfestar mættu eiga vona á því að verða fyrir vonbrigðum með uppgjör fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi.