Ekki liggur fyrir hver arðsemi og tekjurammi Landsnets á að vera, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að það sé gert fimm ár fram í tímann. Kom þetta m.a. fram í máli Geirs A. Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Landsnets, á ársfundi fyrirtækisins í dag.

„Með ákvæðum raforkulaga frá 2011 var að því stefnt að styrkja rekstrarumhverfi fyrirtækisins með því að ákvarða arðsemina og þar með tekjuramma fyrirtækisins 5 ár fram í tímann. Nú í ársbyrjun 2015 liggur ákvörðun fyrir tímabilið 2011 – 2015 enn ekki fyrir og óvissa því um tekjugrundvöll fyrirtækisins. Það er í raun óviðunandi fyrir rekstur Landsnets að ákvarðanir stjórnvalda um leyfða arðsemi og tekjumörk skuli ekki liggja fyrir í samræmi við ákvæði laganna. Félagið getur því ekki brugðist við þeim ákvörðunum með viðeigandi aðgerðum í rekstrinum, meðal annars með breytingum á gjaldskrá í upphafi hvers tekjumarkaárs. Jafnframt getur þetta valdið óeðlilegum sveiflum á gjaldskrá sem er óásættanlegt fyrir viðskiptavini,“ sagði Geir.

Hann sagði jafnframt að mikilvægt sé að ná sáttum stöðugt fyrirkomulag sem tryggi fyrirtækinu og stjórnendum þess grundvöll til að stjórna því á hagkvæman hátt til hagsbóta fyrir alla, bæði notendur þjónustunnar og eigendur fyrirtækisins.