Frá því að Costco opnaði í maí hefur sala Papco á salernispappír og öðrum hreinlætisvörum dregist saman um allt að 30% og hefur fyrirtækið brugðist við með uppsögnum. Papco er eini innlendi framleiðandinn á hreinlætispappír en það hefur í kjölfar sölusamdráttarins sagt upp sex starfsmönnum eða sem samsvarar einni fullmannaðri vakt í framleiðslu að því er Vísir greinir frá.

Alexander Kárason aðstoðarframkvæmdastjóri Papco segir fyrirtækið hafa þurft að aðlagast breyttum aðstæðum, en Costco hefur ekki boðið upp á vörur fyrirtækisins. „Staðan er sú að það er alveg heljarinnar sala búin að fara í gegnum Costco og það hefur mikil áhrif á okkur sem íslenskan framleiðanda,“ segir Alexander.

„Það versta er að í Costco eru vörur seldar undir kostnaðarverði út úr búð. Það er eitthvað sem er ekki hægt að nálgast því pappírinn er náttúrulega á heimsmarkaðsverði eins og olía og stál. Samkeppni er fín og við höfum átt í mikilli samkeppni við innfluttan pappír síðustu ár og áratugi. Erlendi pappírinn hefur þannig stýrt verðlagningunni.

Það sem er óskiljandi fyrir okkur er að pappírinn er töluvert ódýrari hjá Costco hér á landi heldur en hjá verslunum fyrirtækisins í Bretlandi.“ Ýmsar verslanir hafa séð sölu á hreinlætisvörum dragast saman síðan Costco opnaði. Hjá Papco starfa nú 35 manns.