Á þeim fimm árum sem hafa liðið frá því að ný peningastefnunefnd tók við stjórn peningamála hefur verulegur árangur náðst í efnahagsmálum, segir Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Þórarinn skrifar ítarlega grein í Fréttablaðið og á Vísi í dag sem ber yfirskriftina Árangur peningastefnunnar undanfarin fimm ár.

„Þegar nefndin hóf störf fyrir fimm árum var verðbólga 17,6% en nú mælist hún 2,1%. Nefndin hafði reyndar náð verðbólgu í markmið í lok árs 2010 og fram á vormánuði 2011 en í kjölfar ríflegra launahækkana í kjarasamningum vorið 2011 jókst verðbólga á ný og náði hámarki í 6,5% snemma árs 2012. Nefndin brást við þessum aðstæðum með því að herða taumhald peningastefnunnar sem stuðlaði að hjöðnun verðbólgu í markmið á ný,“ segir Þórarinn.

Þórarinn segir þéttara taumhald peningastefnunnar ekki hafa sett efnahagsbatann sem hófst snemma árs 2010 í uppnám, eins og sumir óttuðust. Þannig hafi skráð atvinnuleysi minnkað úr 8,2% þegar nefndin tók til starfa í 4,5% nú í janúar og mælist nú með því minnsta á meðal þróaðra ríkja. Að sama skapi séu horfur á að hagvöxtur í fyrra hafi a.m.k. verið 3% og að Ísland verði eina landið í hópi þróuðustu ríkja heims þar sem hagvöxtur nái 3% eða meira.

„Það sem gerir þennan árangur enn markverðari er að hann hefur náðst þrátt fyrir mjög erfið skilyrði. Hann kemur í kjölfar alvarlegrar banka- og gjaldeyriskreppu, en slíkar kreppur eru jafnan mun dýpri og vara lengur en hefðbundnar fjármálakreppur. Samdráttur hefur einnig verið undanfarin tvö ár á evrusvæðinu sem er okkar helsta viðskiptasvæði, framlag hins opinbera til hagvaxtar var lengi vel neikvætt vegna nauðsynlegra aðhaldsaðgerða í opinberum fjármálum og viðskiptakjör þjóðarbúsins eru í um hálfrar aldar lægð. Þessu til viðbótar hefur töluverður kraftur innlendra aðila farið í að greiða niður skuldir sem dregið hefur þrótt úr efnahagsbatanum,“ segir Þórarinn.