Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hundskammaði Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra á þingfundi í morgun. Í máli sínu vísaði hún til fréttar Viðskiptablaðsins í dag um að Michael A. Bless, forstjóri Century Aluminium, hafi sagst tilbúinn að líta á fjárfestingu fyrirtækisins í álveri í Helguvík sem sokkinn kostnað og láta þar við sitja. Eins og fram kemur í blaðinu í dag bendir málflutningur Bless á kynningarfundi í Bank of America Merrill Lynch með greiningaraðilum til þess að hann telur litlar líkur á að álverið rísi.

Katrín sagði að Ragnheiður Elín hefði sagt á þingfundi að stjórnendur Century væru alsælir með nýju ríkisstjórnina „og nú væru engar hindranir í vegi fyrir því að nú hæfist uppbygging í Helguvík.“ Hún gerði verulegar athugasemdir við þessi orð Ragnheiðar Elínar

„Málið hefur alltaf snúist um viðskiptaákvarðanir á einkamarkaði. Það eru viðskiptaákvarðanir sem hafa tafið verkefnið og það eru viðskiptalegar forsendur sem eru að valda því að yfirlýsingin kemur frá forstjóranum um að ekki verði af þessu,“ sagði Katrín Júlíusdóttir. Hún sagði brýna nauðsyn á því að hafa almenn lög og reglur í landinu þar sem fyrirtæki ættu að geta byggt upp innan þess ramma og leikreglna sem settar væru.

„HS orku er ekki stjórnað af vondum vinstrimönnum. Hún vill ekki selja orku á því verði sem þeir telja að sé fyrirtækinu fyrir bestu,“ sagði Katrín Júlíusdóttir.