„Erlendir kröfuhafar, með hjálp innlendra almannatengla og lögfræðinga, settu upp leikrit í London í síðustu viku, undir yfirskriftinni „Iceland Investment Forum“, til að reyna að fá stjórnvöld til að tala af sér erlendis,“ segir hagfræðingurinn Heiðar Már Guðjónsson. Hann sakar stjórnendur Landsbankans um að misskilja gjaldeyrishöftin enda telji þeir að þau verji bankann. Hið rétta er að höftin verja erlenda kröfuhafa, að mati Heiðars.

Heiðar skrifar grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og segir þar að kröfuhafar bankanna séu hræddir um að eignir þeirra á Íslandi verði ekki áfram undanþegnar íslenskum lögum. Þeir vilji því reyna að fá fram umræðu á alþjóðavettvangi þess efnis að þeir þurfi að þola eignaupptöku og svo fá dómara t.d. í London til að frysta erlendar eignir gömlu bankanna til að koma í veg fyrir slíkan „órétt“.

Afleikur íslenskra embættismanna

Heiðar skrifar:

„Þeir sleppa að nefna að Íslendingar eru gestir í eigin landi, þeir sem raunverulega njóta forréttinda eru erlendir aðilar  sem eru undanþegnir lögum um skatta og skilaskyldu gjaldeyris. Slíkar undanþágur má alltaf afnema og slíka mismunun á að afnema.“

Um dóm Hæstaréttar frá í síðustu viku þar sem greiðslur úr íslenskum þrotabúum miðast við lögeyri landsins, þ.e. íslenskar krónur, segir Heiðar hann sýna afleik íslenskra embættis- og stjórnmálamanna þegar þeir sömdu við erlenda kröfuhafa Landsbankans um greiðslur og uppgjör í erlendri mynt í desember 2009.

„Íslenskir embættismenn hafa litla reynslu og enga sérþekkingu af því að semja við erlenda kröfuhafa. Sú sára reynsla sem þjóðin  hefur af Icesave og samningum íslenskra embættismanna um uppgjör gömlu bankanna hlýtur að kenna okkur að erlendir sérfræðingar eru nauðsynlegir, bæði til að tryggja trúverðugleika Íslands út á við og hagsmuni okkar til framtíðar,“ skrifar hann.