Ríkisendurskoðun segir ráðuneytin ekki hafa brugðist með fullnægjandi hætti við átta ábendingum frá árinu 2010 um innkaupamál. Ríkisendurskoðun segir ráðuneytin ekki hafa endurskoðað innkaupastefnu sína síðan málið var síðast gagnrýnt og séu sumar þeirra komnar til ára sinna.

Fram kemur á vef Ríkisendurskoðunar að árið 2010 hafi Ríkisendurskoðun beint samtals átta ábendingum til ráðuneytanna sem lutu að fylgni þeirra við innkaupastefnu ríkisins og fleiri þáttum innkaupamála. Tveimur ábendinganna var beint til allra ráðuneytanna, sem þá voru tólf, en sex eingöngu beint til fjármálaráðuneytisins. Öll ráðuneytin voru hvött til að auka vægi innkaupamála og beita innkaupastefnu sinni sem virku stjórntæki. Fjármálaráðuneytið var sérstaklega hvatt til að efla kynningu á og eftirlit með innkaupastefnu ríkisins sem og árangursmat á þessu sviði.

Nú þremur árum síðar telur stofnunin að almennt hafi ráðuneytin enn ekki brugðist með fullnægjandi hætti við þeim ábendingum sem beint var til þeirra. Því eru þær allar ítrekaðar í nýrri eftirfylgniskýrslu stofnunarinnar.