Arnoud Nourry, framkvæmdastjóri franska útgefandans Hachette Livre, sem er þriðji stærsti bókaútgefandi heims, segir rafbækur heimskulega vöru sem sé ólíklega að fara að ná frekari útbreiðslu.

Segir hann að ekki verði viðsnúningur á sölu rafbóka eftir þá stöðnun sem sést hefur á síðustu árum í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem rafbókasala náði hámarki árið 2014 en féll á ný árin 2015 og 2016.

„Þetta er hámark rafbókarformsins. Rafbókin er heimskuleg vara. Hún er nákvæmlega sú sama og prentaða varan, nema hún er í rafrænu formi. Það er engin nýsköpun, engin viðbót, engin rafræn upplifun,“ sagði Nourry að því er Guardian segir frá upp úr indversku fréttasíðunni Scroll.in.

„Við útgefendur höfum ekki gert góða hluti í því að fara í stafrænt form. Við höfum reynt. Við höfum reynt viðbætur á rafbókum, það virkaði ekki. Við höfum reynt að vera með smáforrit eða öpp, vefsíður með okkar eigin efni, við höfum náð árangri á einu eða tveimur sviðum á móti hundruðum mistaka. Ég er að tala um iðnaðinn í heild sinni. Við höfum ekki náð miklum árangri.“

Telur hann nauðsynlegt að bæta við hæfileikum úr öðrum geirum því útgefendur og ritstjórar eru vanir því að vinna með handrit á flötum síðum. Því hefur fyrirtækið á síðustu tveimur árum keypt þrjú tölvuleikjafyrirtæki.

Héldu aftur af verðlækkunum á rafbókum

Jafnframt ræddi hann um deilur fyrirtækisins frá árinu 2014, sama ár og rafbækur náðu hámarki sínu í sölu, við Amazon um verðlagningu rafbóka.

Sagði hann að þar hefði fyrirtækið ekki einungis verið að hugsa um eigin tekjur. „Ef þú lætur verð á rafbókum fara niður í 2 til 3 dali á vestrænum mörkuðum, þá ertu að fara að drepa alla sölu í stærri verslunum og þar með tekjur höfunda,“ sagði Nourry.

„Það verður að verja grundvöll þíns eigin markaðar gegn hagsmunum stóru tæknifyrirtækjanna og þeirra viðskiptamódels. Átökin árið 2014 voru um það. Við urðum að grípa í taumana.“