„Þetta mál er allt eins allsherjar þvæla,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, einn þeirra níu sem slitastjórn Glitnis höfðaði skaðabótamál á hendur vegna 15 milljarða króna lánveitingar Glitnis til Baugs í desember árið 2007. Við fyrirtöku í máli slitastjórnarinnar gegn níumenningunum í morgun kom fram að rannsókn sé hafin á málinu hjá embætti sérstaks saksóknara. Sökum þessa var farið fram á frestun málsins í héraðsdómi.

Skarphéðinn segir málið með endemum enda hafi slitastjórn Glitnis sent málið til sérstaks saksóknara í apríl. Hann telur málið geta frestast í þrjú ár ef mið er tekið af hraða málsferðar hjá embætti sérstaks saksóknara. Hann vill að slitastjórnin upplýsi hvaða atriði hafi komið fram sem hafi leitt til þess að sérstakur saksóknari taki málið upp.

Stefnt í febrúar 2012

Stefna í máli slitastjórnarinnar var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíku 2. febrúar í fyrra. Slitastjórnin krefst 6,5 milljarða króna í skaðabætur. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara er málið í rannsókn. Ekki er búið að taka ákvörðun um saksókn í því og engin ákæra gefin út í því á hendur níumenningunum. Hinir stefndu eru auk Skarphéðins, þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, sem var forstjóri Glitnis þegar lánið var veitt, Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group, Björn Ingi Sveinsson, Katrín Pétursdóttir, Haukur Guðjónsson, Pétur Guðmundsson og Þorsteinn M. Jónsson, sem löngum var tengdur við Vífilfell. Sjö af þeim níu sem stefnt var fóru fram á frávísun í málinu snemma árs en því var hafnað.

Ótrúlegur vinkill

Skarphéðinn segir ótrúlegan vinkil kominn upp í málinu. Hann skrifar í tölvuskeyti til VB.is:

„Nítján mánuðum eftir birtingu stefnu í Kastljósi ríkissjónvarpsins vill lögmaður slitastjórnar fresta málinu. Það er á grundvelli þess að slitastjórin sendi málið til sérstaks saksóknana. Það gerði hún fyrir sjö mánuðum síðan (apríl 2013). Það var fjórtán mánuðum eftir birtingu stefnunnar. Hvað uppgötvaðist í apríl sem var ekki ljóst um alla málavexti í febrúar 2012? Hvers vegna er farið fram á þetta fyrst núna þegar rétt rúm vika er í að málið verði flutt? Líklega er það ekki annað en sú staðreynd að slitastjórnin hefur einhverja annarlega hagsmuni af því að halda lífi í þessu máli. Ef dómari felst á frestun skaðabótamálsins verður það í alla vega þrjú ár, ef tekið er mið af málsmeðferðarhraða hjá embætti sérstaks saksóknara sem segir málið á byrjunarstigi. Er ekki rétt að slitastjórnin upplýsi hvað hefur komið nýtt í ljós í þessu máli sem verðskuldi þessa óvæntu sakamálarannsókn?“