Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, fullyrðir í Fréttablaðinu í dag að kaupverð ríkisins á 46 prósenta hlut í Landsvirkjun árið 2006 hafi verið allt of lágt.  Í skýrslu úttektarnefndar á stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í gær, eru rök færð fyrir hinu sama.

„Þegar horft er um öxl er hins vegar eðlilegt að spurt sé hvort það verð sem um samdist hafi verið rétt í ljósi þróunar ytri og innri aðstæðna eftir að samningar voru gerðir og fyrirtækið býr nú við," segir í skýrslu nefndarinnar samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, og Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, sömdu um kaup ríkisins á 46 prósenta hlut í Landsvirkjun árið 2006 fyrir 27 milljarða króna. Hluti andvirðisins, þrír milljarðar, var greiddur í reiðufé, en afgangurinn, 24 milljarðar króna, í skuldabréfi sem lagt var inn hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkur.