Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingar, segir kaup Björns Leifs í World Class á hlut í útgáfufélagi DV dæmi um það þegar viðskiptjöfrar losa sig við „óþægilega“ ritstjóra.

Eins og fram kom í gær og VB.is fjallar um hefur félagið Laugar ehf, sem er í eigu Björns og konu hans, Hafdísar Jónsdóttur, keypt 4,42% hlut í DV. Hluturinn var áður í eigu Ólafs Magnússonar, fyrrverandi stjórnarformanns DV og Kú ehf., Catalína ehf., Innrömmun Sigurjóns ehf. og Víkurós ehf. Reynir Traustason , ritstjóri DV, hefur í kjölfarið sagst reikna með því að hætta störfum á blaðinu á föstudag.

Sigríður skrifar um málið á Facebook-síðu sína.

Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson, sem jafnframt er lögmaður Björns, gerir athugasemd við færslu þingkonunnar og skrifar:

„Sigurbjörg viltu þá ekki leggja Reyni fjárhagslegt lið ef þú telur hann táknmynd tjáningarfrelsis. Kannski er Reynir einn af þessum mönnum sem þú vilt að geti ráðist að æru þeirrra og mannorði sem honum er illa við með fé annarra, sem hann fær að láni og hirðir ekki um að greiða. Svona bull um aðför að tjáningarfrelsi er dæmigert fyrrir þingmenn sem standa ekki fyrir neitt og verða aldrei annað en pólitískir bullukollar.“