Beðið var eftir tillögum átakshóps um aðgerðir á húsnæðismarkaði með töluverðri eftirvæntingu. Vonir stóðu enda til að tillögurnar myndu liðka fyrir þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir og margir óttast að sigli í strand. Aðilar báðum megin samningsborðsins fögnuðu tillögunum þegar þær voru kynntar í síðustu viku þótt aðgerðirnar hafi hvorki verið tímasettar né kostnaðarmetnar.

Viðskiptablaðið ræddi tillögurnar við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, sem líkt og aðilar vinnumarkaðarins tekur tillögunum fagnandi. En þrátt fyrir að vonir standi til þess að tillögurnar leiði til hraðari og markvissari uppbyggingu húsnæðis þarf margt að fara saman eigi þær að verða veruleika.

Hægt að gefa í

Mikill fjöldi byggingakrana víðs vegar um borgina er til marks um þá miklu húsnæðisuppbyggingu sem nú stendur yfir í Reykjavík en betur má ef duga skal. Þótt áætlað sé að 10 þúsund íbúðir muni rísa á árunum 2019-2021 er engu að síður reiknað með að ríflega 1.800 íbúðir vanti upp á til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf í lok tímabilsins. Aðspurður segir Dagur að vissulega sé hægt að hraða framkvæmdum og mæta þessari miklu eftirspurn.

„Já, það er hægt. Til dæmis með uppbyggingu meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu en þar sjáum við nýja þróunarása í borgarlandinu. Við erum með þau svæði til skoðunar, sum eru í skipulagsferli og önnur eru enn á þróunarstigi. Nýlega skrifuðum við undir viljayfirlýsingu við Reiti um svokallaðan Orkuhúsreit við Suðurlandsbraut meðfram Borgarlínu. Á þeirri lóð einni er hægt að byggja 300-400 nýjar íbúðir.

Þarna erum við að gefa tóninn fyrir mun stærra svæði meðfram Borgarlínunni. Með þessu eru við vissulega að leggja fram langtímasýn um framtíðarskipulag en jafnframt erum við líka að koma verkum áfram þannig að við getum svarað strax þörf markaðarins."

Ónýttar lóðir í eigu ríkisins

Átakshópurinn tiltekur sérstaklega landið að Keldum í tillögum sínum og leggur til að skipulagning svæðisins verði sett strax í gang, en hvers vegna hefur þetta svæði setið á hakanum?

„Það eru meira en fimm ár síðan við sendum ríkinu fyrstu erindin um viðræður um uppbyggingu á lóðum í þeirra eigu. Við náðum samningum við Ríkisútvarpið um lóðina á Efstaleiti og sömuleiðis gerðum við samning um Skerjafjarðarlandið sem er nú í skipulagsferli en fer vonandi í uppbyggingu seint á þessu ári.

Keldar hafa beðið m.a. vegna þess að ríkið hefur farið fram á hámarksverð fyrir landið. Það háa verð sem ríkið er að fara fram á gerir það að verkum að erfitt er að koma við framkvæmdum á húsnæði fyrir þann hóp sem er í vanda og brýnast er að koma til móts við. Þegar við setjumst niður með einkaaðilum förum við fram á að hluti uppbyggingarinnar sé almennt leiguhúsnæði og félagslegar íbúðir og okkur þykir ósanngjarnt að ríkið sé stikkfrí þegar kemur að þessum félagslegu markmiðum. Eitt verður yfir alla að ganga og allir verða að sýna samfélagslega ábyrð gagnvart markmiðunum um heilbrigðan húsnæðismarkað.

En ríkið á líka lóðir í borginni þar sem uppbygging gæti hafist strax. Til dæmis lóð Landhelgisgæslunnar við Ánanaust, lóðin við Borgarspítalann og lóðin á Lauganesi. Þetta eru lóðir í eigu ríkisins þar sem hægt væri að hefja framkvæmdir innan fáeinna missera."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .