Áætlað er að heildarskuldir ríkissjóðs muni nema um 1.500 milljörðum króna í lok þessa árs. Sé áætluðum lífeyrisskuldbindingum og vanda íbúðalánasjóðs bætt við nálgast upphæðin 2.000 milljarða, að því er segir í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Fjallað er um ríkisreksturinn í Hagsjánni og hann ekki sagður eins sjálfbær og af er látið. Frumjöfnuður segi ekki alla söguna, því það sé fjármagnsjöfnuðurinn sem sé vandamálið, þ.e. vaxta- og fjármagnskostnaður ríkisins.

Stefna stjórnvalda í rekstri ríkisins hefur annars vegar gengið út á að ná jafnvægi í frumjöfnuði á árinu 2012, sem áætlanir benda til að náist að mati Hagfræðideildarinnar, og að heildarjöfnuður verði orðinn jákvæður á árinu 2014, ári seinna en upphaflega var stefnt að. „Ekki verður séð annað en að vaxtagjöld verði áfram u.þ.b. 15% af tekjum ríkisins á allra næstu árum og er í þeim tölum miðað við áframhaldandi hagstæð fjármögnunarkjör,“ segir í Hagsjánni.

Vill fá áætlun um lækkun skulda

Það sé fyrirsjáanlegt að gjaldeyrisforði gangi smátt og smátt upp í erlendar skuldir og að eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði seldir. Í því sambandi skipti miklu máli að það fé sem fæst fyrir eignahluta bankanna, og mögulega aðrar eignir, verði notað til þess að greiða niður skuldir en ekki til að fjármagna ósjálfbæra útgjaldaaukningu ríkisins. „Þá hlýtur það að vera eðlileg krafa að stjórnvöld setji opinberlega fram áætlun um hvernig þau hyggist ná þeim markmiðum að ná skuldum ríkisins niður í 45-50% og hvenær.“

Segir í Hagsjánni að ef þessir tveir þættir, þ.e. fjárþörf Íbúðalánasjóðs og áætlaðar lífeyrisskuldbindingar, væru settir í eðlilegt fjármögnunarferli, t.d. með útgáfu skuldabréfs til 20 ára, kæmi berlega í ljós hvaða áhrif endurgreiðslur höfuðstóls og vextir hefðu á afkomu ríkisins. Miðað við 6% vaxtakostnað á verðtryggðu bréfi myndi ekki nást heildarjöfnuður fyrr en á árinu 2016.