Stjórnvöld eiga ekki að reyna að greiða götu kröfuhafa föllnu bankanna neitt sérstaklega enda eru þar um að ræða fjárfesta, vogunarsjóði, sem keyptu kröfur bankanna á mjög lágu verði og veðja á að ná fé sínu til baka með hraði. Þetta er fullyrt í umfjöllun Bloomberg-fréttastofunnar í viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

„Það er eins og þeir [innskot: kröfuhafarnir] hafi verið að bíða eftir því að ríkisstjórnin grípi í taumana. En það er ekki hlutverk ríkisstjórna. Eina hlutverk hennar er að meta hvort lausnir kröfuhafa geti leitt til þess að létta á gjaldeyrishöftum,“ segir Sigmundur Davíð. Hann bætir við að kröfuhafarnir sem eru fyrirtæki í einkageiranum séu að semja um einkaskuldir. Ríkisstjórnin eigi þess vegna ekki að koma að viðræðunum að öðru leyti.

Slitastjórn Glitnis sótti fyrir nokkrum misserum síðan um heimild til nauðasamninga. Það hefur ekki gengið eftir og á það sama við um viðræður við aðra kröfuhafa.