Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins ítrekar gagnrýni sína á ríkisstjórnina en eftir ríkisstjórnarfund í morgun var tilkynnt að þar hefðu verið samþykkt til framlagningar á Alþingi 6 ný lagafrumvörp.

Enn fremur er sagt að stjórnin hafi samanlagt samþykkt að leggja 29 mál fyrir þingið, þar af 26 lagafrumvörp.

„Á þriðjudaginn vakti ég athygli á því að þrátt fyrir allan þennan fjölda nýrra stjórnarfrumvarpa hefðu afar fá skilað sér inn í þingið. Þá höfðu aðeins 9 frumvörp frá ríkisstjórninni verið lögð fram og eftir athugun í dag er ljóst að frá þeim tíma hefur ekkert mál bæst við þann lista,“ segir Birgir í yfirlýsingu.

„Því brennur enn á mér spurningin: Hvar eru öll stjórnarfrumvörpin? Nú eru greinilega 20 mál, sem samþykkt hafa verið í ríkisstjórn einhvers staðar á leiðinni milli Stjórnarráðsins og Alþingis og það hlýtur að vekja furðu hvers vegna þingið fær þau ekki til meðferðar. Þessar tafir koma sérstaklega á óvart í ljósi þess að tíminn til kosninga styttist óðum.“   Birgir fjallaði um málið á Alþingi í gær og sagði meðal annars:

„Þingið hefur haft öll tök á að taka hvaða mál á dagskrá sem er. Ef hv. þm. Helgi Hjörvar er að vísa til þess að einhver mikilvæg mál frá ríkisstjórninni bíði afgreiðslu hér í þinginu þá hygg ég að svo sé ekki.

Ég hygg að það sé eitt frumvarp frá ríkisstjórninni sem bíður þess að komast á dagskrá og ég verð að segja að miðað við heiti þess máls bendir það ekki til þess að það snúist um að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu, sem er grundvallarverkefni bæði Alþingis og ríkisstjórnar um þessar mundir.

Það er nefnilega þannig að eins og staðan er í dag þá hefur ríkisstjórnin ekki skilað inn í þingið öllum þeim frumvörpum sem hún talar um á blaðamannafundum.

Á blaðamannafundum er talað um að það séu 24 eða 25 frumvörp afgreidd frá ríkisstjórn en bara níu þeirra hafa sést hér í þinginu, aðeins níu, og meiri hluti þeirra var reyndar unninn í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég hef því á tilfinningunni að núverandi ríkisstjórn sé fyrst og fremst ríkisstjórn yfirlýsinganna en ekki aðgerðanna.“