Kaup stórra sjávarútvegsfyrirtækja á hráefni á fiskmörkuðum er að þrengja að smærri fiskvinnslum. Þær fá ekki hráefni og er rekstur þeirra í hættu og virðist sem stórfyrirtækin séu að knésetja þau sem minni eru. Í Fréttablaðinu er greint frá því að Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Ísfisks í Kópavogi, lýsti aðstæðum þeirra sem treysta á hráefnisöflun á fiskmörkuðum fyrir atvinnuveganefnd Alþingis á dögunum. Albert sagði stóru fyrirtækin í útgerð og vinnslu hafa í meiri mæli en áður sótt hráefni á fiskmarkaði.

„Suma daga kaupa þeir ekki neitt en aðra daga mikið. Þetta eru fyrirtæki sem í skjóli stjórnvalda geta landað fiski hjá sinni útgerð á miklu lægra verði heldur en við, og þeir sjálfir, kaupa á fiskmarkaði,“ sagði hann og bætti við að sum fyrirtæki þurfi að leita eftir beinum viðskiptum til hráefniskaupa á meðan önnur séu við það að leggja upp laupana vegna hráefnisskorts.