„Mér finnst rök ráðherra ekki halda vatni. Hún gaf okkur ekki svör sem róuðu mig allavega. Það sem stendur eftir í þessum aðgerðum er að markaðsstaða fyrirtækja í bleikjueldi er stórlega skekkt hér á landi,“ segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, í samtali við Fréttablaðið .

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mætti á fund atvinnuveganefndar Alþingis í gærmorgun til þess að ræða ívilnanasamning ríkisins við Matorku . Ekki voru hins vegar allir nefndarmenn á eitt sáttir við svör ráðherrans.

„Fundurinn var gagnlegur og upplýsandi en ég fór fram á að forsvarsmenn Íslandsstofu muni koma fyrir nefndina og útskýra þætti málsins sem enn eru mjög óljósir,“ segir Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.

Hann segir málið hafa vakið spurningar um hvernig lagaramma Íslendingar vilji hafa. „Viljum við ívilna til fyrirtækja sem skekkja markaðinn sem er fyrir mjög viðkvæmur?“