Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir fréttastofu Ríkisútvarpsins (RÚV) hafa ranglega sakað hann um blekkingar. Vísar hann þar til fréttar RÚV síðasta föstudag þar sem sagt er að orð Guðlaugs um að útvarpsgjald hafi runnið óskert til stofnunarinnar séu röng.

Guðlaugur vísar þar til bréfs Steingríms J. Sigfússonar og Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi ráðherra, frá árinu 2011 til stjórnar RÚV vegna gagnrýni hennar um að fjárveitingar Alþingis til stofnunarinnar fylgdu ekki heimtum af útvarpsgjaldi. Þessum fullyrðingum hafi verið harðlega mótmælt af ráðherrunum, enda hafi þær ekki verið í samræmi við staðreyndir mála.

Loks krefst hann leiðréttingar og afsökunarbeiðni frá fréttastofunni. Segir hann ábyrga og metnaðarfulla fjölmiðla hafa beðist velvirðingar af minna tilefni.