„Þetta er ein ruddalegasta húsleit sem hefur verið framkvæmd á Íslandi og hún var gerð í samstarfi við RÚV, þeir voru mættir á undan og greinilega allt þaulskipulagt, það hefur aldrei farið á milli mála, og sendar fréttatilkynningar um allan heim.“

Þetta er meðal þess sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í útvarpsviðtali í þættinum í Bítið á  Bylgjunni í morgun. Tilefni viðtalsins var fréttaflutningur af því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi tilkynnt meintan upplýsingaleka frá Seðlabankanum til starfsmanna RÚV.

Samherji kærði Má Guðmundsson og aðra stjórnendur Seðlabankans til lögreglu síðastliðið vor vegna meintra brota í starfi í tengslum við rannsókn á Samherja og höfðaði skaðabótamál gegn bankanum. Umrædd húsleit var framkvæmd árið 2012 vegna gruns um að Samherji hefði brotið á gjaldeyrislögum. Húsleitin var að mati Þorsteins tilhæfulaus aðgerð sem hafi staðið yfir í sjö ár og valdið félaginu miklum skaða.

„Er eðilegt að ríkisfjölmiðill sé að reyna að búa til glæp með stofnun sem á að vera mesta virðingarstofnun landsins?“ sagði Þorsteinn jafnframt í viðtalinu í morgun.