„Ríkisútvarpið er eins og aðrar stofnanir í þeirri söðu að þurfa að hagræða,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Eins og fram hefur komið þarf RÚV að segja upp 60 starfsmönnum. Þar af var 39 starfsmönnum sagt upp í dag. Uppsagnirnar voru harðlega gagnrýndar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar á meðal sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, að nú þegar sjái til lands í ríkisrekstrinum þá gangi ekki að skera niður í kjarnastofnun þjóðmenningar landsins. Hann þrýsti á Bjarna að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlögum til að forða niðurskurði og uppsögnum á RÚV.

Dagskrárliðir munu hverfa

Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði í tilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun að hálfan milljarð króna vanti upp á í rekstrinum svo endar nái saman. Auk fækkunar starfsfólk þurfi að skera niður í útvarpi og sjónvarpi og nokkrir dagskrárliðir hverfa í niðurskurðinum.

„Það er óhjákvæmilegt að niðurskurður af þessari stærðargráðu hefur mikil áhrif á dagskrá Ríkisútvarpsins. Hann mun bæði sjást og heyrast. Nokkrir dagskrárliðir í útvarpi og sjónvarpi munu hverfa, öðrum fækkar og enn aðrir breytast og þynnast. Fréttatímar munu styttast og þeim mun fækka,“, sagði Páll.

„Ástandið er vissulega alvarlegt. Við hugsum til þeirra. En við getum ekki litið undan þegar ríkissjóður er rekinn með rúmlega 30 milljarða halla. Við meðferð fjárlaga verður að horfa til allra þátta í ríkisrekstrinum,“ sagði Bjarni Benediktsson við gagnrýni