Fyrrverandi aðalráðgjafi olíumálaráðherra Sádí-Arabíu segir ríkið geta setið af sér lágt olíuverð í að minnsta kosti átta ár, að því er segir í frétt BBC. Mohammed al-Sabban segir í samtali við breska útvarpið að stefna ríkisstjórnarinnar væri að verja markaðshlutdeild Sádí-Arabíu á olíumarkaði þótt það þýði að olíuverð verði lægra en ella í einhvern tíma.

„Þú verður að leyfa olíuverði að fara eins lágt og það fer svo að jaðarframleiðendur yfirgefi markaðinn,“ segir hann. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafa ítrekað sagst ekki munu minnka framleiðslu sína til að ýta olíuverði upp á við á ný. Ein kenningin er sú að Sádí-Arabar sjái tækifæri í verðlækkun síðustu mánaða, enda eigi bandarísk olíufyrirtæki sem vinna olíu úr sandsteinslögum mun erfiðara með að standa þetta lága verð af sér.

Að því er al-Sabban segir þá er gjaldeyrisvaraforði Sádí-Arabíu geysistór auk þess að verið er að vinna að samdrætti í ríkisútgjöldum. Segir hann að ef ekki væri fyrir sparnað ríkisútgjalda gæti landið aðeins þolað fjögur ár af ódýrri olíu.