Miklu skiptir fyrir framtíðarstöðu Sjálfstæðisflokksins hvort hann verði í ríkisstjórn næstu fjögur árin, að mati Gunnars Helga Kristinssonar stjórnmálafræðings. Fréttablaðið birtir í dag fréttaskýringu um stöðu flokksins í skugga fylgishruns í aðdraganda Alþingiskosninga eftir rúma viku, þ.e. 27. apríl næstkomandi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19-23% fylgi í skoðanakönnunum. Þar af mældist fylgi við hann 22,9% í könnun MMR sem birt var í gær borið saman við 21,2% í fyrri mælingu.

Gunnar Helgi segir í samtali við blaðið að verði flokkurinn utan ríkisstjórnar í önnur fjögur ár hafi hann misst mikla nærveru í íslenskri pólitík og mikil áhrif.

„Það hefur aldrei gerst í sögu flokksins að hann hafi verið svo lengi utan ríkisstjórnar. Ef þú skoðar stöðu flokksins yfir lengri tíma er staða hans að veikjast, eins og hjá mörgum öðrum stórum kerfisflokkum. Það hefur eitthvað með samfélagsbreytingar að gera og breytta samsetningu kjósendahópsins,“ segir hann.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur bendir sömuleiðis á það að þegar Samfylkingin kom fram hafi þrengst svo að Framsóknarflokknum á miðjunni að hann hafi nánast horfið. Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt á brattann að sækja og hrakist af miðjunni til hægri. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn ekki að missa sérstöðu sína verði hann að grípa til róttækra aðgerða.

„Annars sé hætt við því að saga flokksins á landsvísu verði eins og í Reykjavík; nýjar kynslóðir vaxi upp sem hafi ekki hugmynd um sögulega stöðu flokksins og líti ekki á það sem náttúrulögmál að Sjálfstæðis- flokkurinn sé stærsti flokkur landsins,“ segir í fréttaskýringu Fréttablaðsins.