Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, segir lítil viðbrögð forystusveitar Samfylkingarinnar við bréfi Árna Páls Árnasonar til flokksmanna vekja athygli. Hann segir að með bréfinu hafi Árni Páll fyrst og fremst reynt að skapa sér stöðu innan flokksins.

„Það sem vekur svo athygli í framhaldinu er að það er ekki þannig að formaðurinn í flokknum fái rífandi undirtektir undir það að fara í einhvers konar sjálfsskoðun eða sjálfsrýni. Heldur eru einu viðbrögðin sem maður sér, einu úr þingflokknum og forystusveitinni, svona skeptísk viðbrögð,“ sagði Birgir í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

„Það er enginn sem kemur opinberlega fram úr framvarðasveitinni hjá flokknum og segir að þetta sé mál til að ræða og tekur undir með formanninum. Hann stendur þarna einhvern veginn aleinn. Annað hvort er hann algjörlega aleinn eða ástandið er þá þannig að hann sé það veikburða að það treysti sér enginn, af eiginhagsmuna- sjónarmiðum, til þess að stíga fram og standa með honum. Það gera alls konar flokksmenn úti í bæ, en í þessari forystusveit flokksins virðist enginn standa upp og bakka hann upp.“

Birgir segir ástandið vera svolítið eins og í ríki náttúrunnar þar sem allir hugsa um eigin hag og enginn treystir neinum.

„Menn búast eiginlega við hnífsstungum úr öllum áttum. Það er þannig ástand sem maður skynjar að sé þarna í gangi. Allir eru vissulega kurteisir og allt það, en það er svolítið köld kurteisi.“

Hann segir skilaboðin sem koma út úr þessu vera að fólk treystir ekki hvort öðru og spyr hvers vegna kjósendur eiga að treysta þannig fólki. Ef nýr formaður komi ekki úr þingflokki Samfylkingarinnar þurfi viðkomandi að vera gríðarlega sterkur einstaklingur. Það að skipta formann sé ekki endilega lausn, eins og formannaskiptin í Bjartri framtíð sýni.

„Þannig að þetta er dálítil ormagryfja, virðist vera. Nú er ég ekki að tala sem innanbúðarmaður eða að ég þekki eitthvað sérstaklega til þarna, en sem áhorfandi úti í bæ,“ segir Birgir.