Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir samningana um Jan Mayen á árunum 1980 og 1981 með þeim sterkustu sem Íslendingar hafi gert. Af miklu hugviti hafi samningamenn utanríkisþjónustunnar náð fram hagstæðum reglum um hlutdeild í hugsanlegum olíulindum á svæðinu. Ísland eigi nú rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á norska hluta svæðisins. Á móti á Noregur rétt á 25% þátttöku á íslenska hlutanum.

Össur segir í grein sinni í Fréttablaðinu að samkvæmt samkomulaginu njóti Íslendingar margvíslegs hagræðis umfram Norðmenn.

Áhættulaus olíuvinnsla

„Endanlegur samningur mælti svo fyrir að ætluðu Norðmenn að nýta rétt til fjórðungshlutdeildar í lindum Íslandsmegin, þar sem nú heitir Drekasvæðið, yrðu þeir að tilkynna það eigi síðar en mánuði eftir úthlutun rannsóknarleyfa. Þann rétt notfærði norska ríkisolíufyrirtækið sér varðandi leyfin tvö sem var úthlutað á Drekanum sl. sumar. Þeir bera þannig frá upphafi fjórðung kostnaðar við að koma svæðinu í vinnanlegt horf [...]. Íslendingar geta hins vegar beðið með ákvörðun þangað til fyrir liggur að byrjað er að draga upp olíu eða gas Noregsmegin og líkur eru á að hún sé arðbær. Áhætta íslenska ríkisins af slíkri þátttöku er því nær engin. Utan um íslensku hlutina í olíulindum Norðmanna er hins vegar brýnt að stofna sérstakt ríkisolíufélag, líkt og Norðmenn gera í sama tilgangi. Fyrir því er raunar gert ráð í olíulögunum sem ég lagði fram á sínum tíma. Með þessu fyrirkomulagi bera Íslendingar enga fjárhagslega áhættu. Olíusjóðurinn yrði hlutafélag, sem dregur enn úr áhættu ríkisins.“

Össur heldur áfram:

„Hagnaður þess gæti runnið í sérstakan olíusjóð eða auðlindasjóð að fordæmi Norðmanna. Þannig yrði tryggt að afrakstur lindanna kæmi núverandi kynslóðum aðeins til góða að litlu leyti en yrði ávaxtaður fyrir komandi kynslóðir, í krafti þeirrar fallegu röksemdar að hinir ófæddu eigi sinn skerf í endanlegum auðlindum þjóðarinnar. Næsta skref er að stofna ríkisolíufélag til að halda utan um hluti Íslands í olíulindum Norðmanna sem verða til á vinnslusvæðinu Noregsmegin miðlínunnar. Staða Íslands sem olíuríkis styrkist því fyrr sem það er gert,“ skrifar Össur og bendir á að samningarnir hafi verið tær snilld.