„Þeir vilja halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Það kemur ekki á óvart úr þessari átt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um úttekt Alþýðusambands Íslands (ASÍ), Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun sambandsins og valkosti í efnahagsmálum. Sigmundur sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins (RÚV) um úttektina að viðkomandi hafi gefið sér fyrirfram hver niðurstaðan verði af úttektinni. Hún sé sú að halda viðræðum áfram. Það er þvert á það sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætli sér.

Fram kemur um málið á vef ASÍ að samtökin öll telji æskilegt að aðildarviðræðum við ESB verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera hlé á aðildarviðræðum telja samtökin mikilvægt að lagt verði mat á stöðu aðildarviðræðna við ESB og hvaða áhrif hléð hafi á framvindu viðræðna,“ segir jafnframt á vef ASÍ.

Sigmundur segir hins vegar niðurstöðuna gefna fyrirfram. Stjórnvöld ætli á hinn bóginn að halda áfram sinni eigin úttekt, sem verði gerð af hlutlausum aðila.