„25 punkta sjálfsmark“ er titillinn á bréfi sem Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, sendi viðskiptavinum í dag í kjölfar ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Lýsir hún yfir vonbrigðum með ákvörðunina þar sem hún hafi verið þeirrar skoðunar að ein verðbólgumæling, tvær húsnæðisverðmælingar og tilfinninganæmur skuldabréfamarkaður í kjölfar ÍL-sjóðs málsins hefðu ekki verið nógu sterk rök fyrir vaxtahækkun.

„Nefndin virðist ekki vera sömu skoðunar, þar sem í yfirlýsingu hennar eru þetta einmitt rökin sem talin eru upp fyrir vaxtahækkun, það er að segja aukning verðbólgunnar í október, hækkun á verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði og rúsínan í pylsuendanum, gengisveiking krónunnar. Þá var einkaneyslan einnig gerð að blóraböggli á kynningarfundinum í morgun, þrátt fyrir að hún komi hvergi fyrir í yfirlýsingu nefndarinnar,“ segir Erna Björg í bréfinu.

Rökstuðningur á brauðfótum

Erna telur að hægt sé að lesa úr yfirlýsingunni og kynningarfundinum að vaxtahækkunarferlinu sé lokið. „Miðað við yfirlýsingu nefndarinnar og svör (réttara væri að skrifa fátt um svör) í morgun þarf hins vegar mjög lítið út af að bregða til þess að nefndin skipti um skoðun og virðist hún hafa tröllatrú á eigin getu til að örstjórna hagkerfinu (e. micromanage).“ Þá undrast Erna Björg áðurnefndan rökstuðning nefndarinnar fyrir vaxtaákvörðuninni í morgun og telur hann standa á brauðfótum.

„Horfurnar fyrir næsta ár hafa aðeins batnað, að einhverju leyti vegna grunnáhrifa landsframleiðslunnar (vöxtur þessa árs færist yfir á næsta ár svo við erum að koma af lægri grunni en áður var talið) en einnig hafa ráðstöfunartekjur hækkað nokkuð meira en reiknað var með í ágúst, sem þýðir að heimilin geta viðhaldið hærra útgjaldastigi. Þessi mikla breyting einkaneyslunnar milli funda, líkt og nefndin vill meina, á því ekki við rök að styðjast, þessi þróun var viðbúin og horfurnar til skamms tíma ekkert breyst,“ skrifar Erna Björg.

Hvað varðar gengið þá nefnir hún að krónan hafi veikst um 2,7% gagnvart evru á milli funda. „Ef 2,7% gengisveiking er þetta mikill hvati til að hækka vexti, hvað þá ef gengið styrkist? Það virðist ekki þurfa miklar sveiflur til, og þá virðist sem ekkert tillit sé tekið til helstu ástæðu gengisveikingarinnar.“

Henni þykir áhugavert að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði sé sérstaklega tekið fyrir, sérstaklega í ljósi þess að verðbólguvæntingar hafi lækkað eða staðið í stað á milli funda. Í því samhengi rifjaði hún það einnig upp að Seðlabankastjóri hefði áður „lýst skuldabréfamarkaðinum sem litlum og móðursjúkum og talað um að taka hann í daggæslu í sömu andrá“.

Nefndin virðist taugaveikluð

Að lokum segist Erna Björg vera þeirrar skoðunar að peningastefnunefnd og seðlabankastjóri hafi skotið sig í fótinn með kynningarfundi sínum í október og vaxtahækkuninni í morgun.

„Vissulega er Seðlabankinn sjálfstæð stofnun og enginn að biðja um loforð um vaxtalækkanir eða óbreytta vexti inn í kjarasamninga, en miðað við boltasendingarnar og sjálfshreykni síðasta fundar þá kemur þessi vaxtahækkun afar illa út, ekki síst fyrir trúverðugleika Seðlabankans.“

Þá segir Erna Björg nefndina virðast taugaveiklaða og fljóta að bregðast við suði í hagtölum, án þess að gefa öðrum tækifæri til að leggja sitt á vogarskálarnar. „Varaseðlabankastjóri sagði að nefndin væri tilbúin að spila sóló og skora mark, en ég óttast að nefndin hafi með þessu skorað sjálfsmark.“