Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og meðlimur peningastefnunefndar seðlabankans, segir ráðningaferli seðlabankastjóra of pólitískt, og stjórnast of mikið af persónulegum tengslum. Fyrirhuguð sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins muni aðeins gera illt verra í því sambandi. Þetta kemur fram í grein sem Gylfi skrifar í vikuritið Vísbendingu og Kjarninn segir frá .

Í fullkomnum heimi segir Gylfi vel mega vera að sameiningin myndi skila tilætluðum ávinningi, „en í þeim heimi sem við búum í getur afleiðingin orðið þveröfug.“

Helstu ástæðu þess að fagleg sjónarmið verði undir við skipun seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra segir hann vera þá að stofnunin sé einfaldlega of valdamikil og mikilvæg til að stjórnmálamenn geti látið val á yfirmönnum hennar óafskipt.

„Stofnun sem setur reglur á fjármálamarkaði, hefur eftirlit með hegðun fyrirtækja á markaði og getur farið inn í rekstur fjármálastofnana ef henni finnst rekstur of áhættusamur og þar að auki ákveðið vexti, bindiskyldu og haft mikil áhrif á gengi gjaldmiðils í gegnum kaup og sölu á gjaldeyri gæti þannig einfaldlega verið of stór og valdamikil til þess að stjórnmálamenn, þ.e.a.s. þeir sem eru í ríkisstjórn á hverjum tíma, geti látið fagleg sjónarmið ráða við val á yfirmönnum. Pólitísk og persónuleg hollusta mun skipta enn meira máli en áður. Sjálfstæði starfseminnar væri þá ógnað.“

Gylfi líkir ráðningaferli í umrædd embætti hingað til við „möndluleik í jólaboði“, þar sem fyrst sé ákveðið hvern skuli skipa, og hæfnismatinu síðan einfaldlega stillt þannig upp að viðkomandi komi efstur á blaði út úr því. Stofnunin sé einfaldlega „of mikilvæg pólitískt til þess að reynt sé að leita uppi hæfasta fólkið í störfin“.