Nicolai Tangen ætlar að selja allan eignarhlut sinn í 20 milljarða dala vogunarsjóðnum AKO Capital, sem hann stofnaði, til að bregðast við gagnrýnisröddum á ráðningu hans sem næsta forstjóra norska olíusjóðsins. Financial Times segir frá .

Tangen hyggst millifæra alla hluti sína í AKO Capital til góðgerðarfélagsins síns AKO Foundation. Hann mun einnig selja allar eignir í einkasjóði sínum, sem hann segir vera andvirði sjö milljarða norskra króna, eða um 108 milljarða íslenskra króna, og setja fjármagnið í bankainnstæður.

„Ég hef ráðist í þessar aðgerðir til að enginn efist um hvaða hatt ég klæðist. Ég vil verða forstjóri olíusjóðsins og hef einungis eitt markmið: að búa til auðæfi fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Tangen á blaðamannafundi í gærkvöldi.

Sjá einnig: Skandall skekur norska olíusjóðinn

Ýmsir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt Norges Bank, norska seðlabankann sem rekur olíusjóðinn, fyrir hafa ekki náð að útiloka hagsmunaárekstra hjá Tangen. Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn hafa haft áhyggjur af því að sumir sjóðir AKO séu skráðir á Cayman-eyjum, sem þeir telja að geti unnið gegn baráttu olíusjóðsins gegn skattaskjólum.

Tangen hafði samþykkt í lok maí að lækka hlut sinn í vogunarsjóðnum úr 78% niður í 43% og að láta Erik Keiserud, lögfræðing og fyrrum stjórnarformann olíusjóðsins, starfa sem sjálfstæðan fjárhaldsmann eigna sinna í AKO. Sú ráðstöfun virðist hins vegar ekki hafa dugað til og því ákvað hann, í samráði við Norges Bank, að selja allan eignarhlut sinn.

Jan Tore Sanner, fjármálaráðherra Noregs, kvaðst ánægður með samkomulag Tangen og norska seðlabankans. Hann sagði þó að ráðningarferlið hafi búið til miklar deilur og að ríkisstjórnin þurfi nú að athuga hvort þörf sé á breytingum.

Tangen og Oystein Olsen, seðlabankastjóri Norges Bank, eru báðir á því að upphaflega samkomulagið þeirra hafi verið nægilega gott en viðurkenndu að þeir þurftu að gera breytingar eftir þrýsting frá öllum níu þingflokkunum.

Hinn 54 ára Tangen, sem mun taka við forstjórastarfinu á þriðjudaginn í næstu viku, viðurkenndi einnig að hefði hann vitað að hann þyrfti að selja sig út úr AKO þá hefði hann ekki sótt um stöðuna í desember. Hann sagði í gríni að hann hefði spurt hvort hann mætti geyma bankainnstæður sínar í seðlabankanum en því hafi verið neitað. Tangen bætti einnig við að eftir allt ferlið þá skuldi Olsen honum bjór.