Nýr aðili hefur bæst í hóp þeirra ferðaskrifstofa sem bjóða Íslendingum sumarlandaferðir, en norræna fyrirtækið Nazar hóf í síðustu viku sölu á fjölskylduferðum fyrir næsta sumar. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar á Norðurlöndunum, segir að þegar félagið var stofnað árið 2004 hafi alltaf staðið til að vera með starfsemi á Íslandi, en ýmis efnahagsleg áföll, hér heima og erlendis, hafi sett strik í reikninginn og því hafi innkomu félagsins á íslenska markaðinn seinkað.

Nazar er dótturfélag TUI, sem er eitt af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum heims. „Við hjá Nazar erum ekki stór partur í TUIsamstæðunni, en rekstur okkar er hins vegar mjög arðsamur og það er nokkuð sem við erum stolt af,“ segir Yamanlar. „Veltan hjá okkur í fyrra nam um 10,9 milljörðum íslenskra króna og hagnaðarhlutfallið var 12,6%, sem nánast þekkist ekki í þessum iðnaði.“ Hann segir að vonast sé til að selja Íslendingumum 2.000 ferðir í ár og að eftir nokkur ár verði þær orðnar10.000 talsins.

„Það er tvennt sem ber að nefna í þessu samhengi. Annars vegar það að þótt 10.000 ferðir séu í raun bara klink fyrir TUI þá skipta þær okkur hjá Nazar töluverðu máli, enda seljum við ríflega 90.000 ferðir á ári frá Norðurlöndunum. Ef Ísland verður 10% af rekstrinum hjá okkur þá er það verulegt mál. Hitt er að markmið okkar er ekki að ryðjastinn á íslenska markaðinn og ýta öðrum út. Markmiðið er frekar að auka fjölbreytni í framboði og marka okkur pláss með öðrum ferðaskrifstofum sem hér starfa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .