*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 13. júlí 2018 12:01

Segir síðasta úrskurðinn vera ögrun

Gylfi í ASÍ segir lokaúrskurð kjararáðs sem hækkaði laun forstjóra Landspítalans vitlausan og taktlausan í miðri kjaradeilu.

Ritstjórn
Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir síðustu ákvörðun Kjararáðs alveg jafn vitlausa og taktlausa og aðrar ákvarðanir ráðsins að því er Fréttablaðið greinir frá. Jafnframt gagnrýnir hann nýlega aukið vald stjórna til að ákvarða launin sem fari fram úr öllu hófi, en kjararáð úrskurðaði um launin áður.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá fagnar framkvæmdastjóri SA því að ráðið hafi úrskurðað í síðasta sinn, sem það gerði með því að hækka 48 ríkisstarfsmenn skömmu fyrir að ráðið var lagt niður um áramót. Bendir Gylfi á að meðal þeirra sem fái hækkun í miðri kjaradeilu við ljósmæður sé forstjóri Landspítalans.

„Úrskurðir kjararáðs hafa í gegnum tíðina sett kjaramál í algjört uppnám. Nú rýkur kjararáð til, þrátt fyrir vilja þingsins, og úrskurðar um þessar hækkanir tveimur vikum fyrir gildistíma laganna. Þetta er hrein og klár ögrun,“ segir Gylfi sem gagnrýnir þó einnig aukið vald stjórna opinberra stofnana til að ákvarða laun æðstu stjórnenda.

„Þá var talað um að fara yrði varlega og gæta hófsemi. Stjórnir til dæmis Landsvirkjunar og Landsbankans töldu sig beita mikilli hófsemi með milljón króna hækkun. Þannig er búið að skilgreina hófsemi.“