Sigurður Sigurbjörnsson, frá Bandalagi íslenskra námsmanna, hefur sagt sig úr stjórn Byggingafélags námsmanna (BN) vegna óánægju með störf stjórnarinnar.

Sigurður segir að stjórnin neiti að leita sér aðstoðar í málum sem geti munað tugum til hundraða milljóna króna fyrir félagið.

Ástæður uppsagnarinnar eru nokkrar, að sögn Sigurðar, en meginástæðan er sú að hann segist ekki með nokkru móti geta réttlætt fyrir sjálfum sér að sitja í stjórn með fólki sem neitar að leita sér aðstoðar þegar kemur að því að taka ákvarðanir sem geta skipt tugum ef ekki hundruðum milljóna fyrir félagið.

„Stjórnarhættirnir og vinnubrögð í stjórninni geta verið fyrir neðan allar hellur og stundum er verið að taka ákvarðanir um peningaupphæðir sem hlaupa á milljörðum og önnur stór mál sem stjórnarmenn hafa ekkert vit á, án þess að leita til sérfræðinga. Þegar mönnum var bent á að þeir hefðu gert mistök voru viðbrögð þeirra ekki þau að réttast væri að leiðrétta þau heldur kom sú vörn fram að fyrst búið væri að gera þetta væri ekki forsvaranlegt að bakka því þá myndi BN missa trúverðugleika sinn. Ég tel því að stjórn BN sé ekki að gæta hagsmuna félagsins með þeim hætti sem henni ber,“ segir Sigurður.

Sigurður telur að stjórn Byggingafélags námsmanna hafi m.a. staðið illa að flestu sem snýr að undirbúningi á sölu á ákveðnum eignum félagsins og telur að félagið hafi átt að leita til fleiri en eins ráðgjafa, þ.e.a.s. KPMG, þegar kom að sölumeðferð eignanna.

„Fundargögn eru iðulega send seint fyrir boðaða fundi og það kemur fyrir að hluti þeirra berst alls ekki og því mjög erfitt að undirbúa sig til að ræða þau mál sem taka á fyrir á fundinum. Mál eru því afgreidd án þess að eðlileg umræða um þau hafi farið fram,“ segir Sigurður og bætir við að engum fundargerðum hafi verið skilað frá síðustu fjórum fundum þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því.

„KPMG gerði úttekt á starfsemi BN á sínum tíma og gagnrýndi réttilega að Byggingafélagið leitaði alltaf til eins og sama aðilans þegar kom að byggingaframkvæmdum en bauð ekki út verk sem gátu hlaupið á hundruðum eða þúsundum milljóna króna. Ég tel að KPMG hefði átt á benda BN á að leita til fleiri aðila um ráðgjöf við söluna en ekki ætla sér að sitja einir að henni þrátt fyrir að það þjóni hagsmunum þeirra,“ segir Sigurður.