Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sakar Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um skort á framtíðarsýn. Hann telji flest sem að ami vera síðustu ríkisstjórn að kenna. Þetta segir Katrín á fésbókarsíðu sinni í dag.

Umræða um heilbrigðismál síðastliðna mánuði var Sigmundi Davíð hugleikin á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fram fór á Selfossi nú um helgina. „Vandinn liggur ekki í fjárlögum 2014. Hann liggur í síðastliðnum fjórum árum en við erum að snúa þeirri þróun við,” sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu á síðasta kjörtimabili hefði verið „gegndarlaus“.

Katrín Jakobsdóttir segir að Sigmundur Davíð líti framhjá því að skorið hafi verið niður á LSH frá aldamótum og aukning í heilbrigðisútgjöldum á svokölluðum góðæristímum hafi verið í öðrum þáttum, t.d. sérfræðiþjónustu, sem sé til marks um ákveðna pólitíska línu. „Raunar virðist flest sem amar að vera síðustu ríkisstjórn að kenna þannig að forsætisráðherra er enn í stjórnarandstöðu í stað þess að tala til framtíðar,“ segir Katrín.