Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs gagnrýnir ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar í grein sem hún birtir í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir hún að Sigurður hafi farið með rangt mál í grein sem hann birti í Morgunblaðinu síðustu helgi. Aspaker ítrekar í grein sinni að Norðmenn hafi alltaf haft það að leiðarljósi að ganga til samninga við Íslendinga um heildstæða umsjón með makrílstofninum.

Í grein Aspaker segir m.a. „Ég tek eftir því að Íslendingar hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna þess að ESB hafi rofið samning sem þessir tveir aðilar gerðu um skipti og veiðikvóta. Þessi svonefndi „samningur“ var gagnkvæmt samkomulag Íslendinga og ESB sem var gert án þess að láta okkur vita og hefði mögulega getað haft alvarleg áhrif á okkar hluta kvótans. Okkur bárust fyrst fregnir af þessu með upplýsingum sem lekið var til fjölmiðla. Í því samhengi er undarlegt að heyra að það séu Norðmenn sem hafi „leikið ljótan leik“.“