Gunnar Örn Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir í úttekt Viðskiptablaðsins í dag að gríðarlegt tækifæri til að stofna öflugt fjárfestingarfélag hafi farið út um þúfur þegar ekkert varð úr þeirri hugmynd að Nýsköpunarsjóður stofnaði rekstrarfélag með fjármálastofnunum.

Þegar Gunnar Örn gegndi embætti framkvæmdastjóra taldi hann að sjóðurinn hefði ekki náð tilætluðum árangri, meðal annars vegna þess að hann hafi farið rangt af stað í upphafi. "Fjárfest var í allt of mörgum fyrirtækjum og peningarnir dreifðust því á of marga staða, sem hafði ókosti í för með sér. Í fyrsta lagi er erfitt er fylgja fjármagninu eftir þegar fjárfestingar eru mjög dreifðar. Í öðru lagi er mun ólíklegra að fjárfestingarnar skili nægjanlegri ávöxtun, sem er auðvitað grundvöllur fyrir því að svona starfsemi sé í gangi," segir hann í viðtali við Viðskiptablaði.

Jón Steindór Valdimarsson, stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs, vill ekki tjá sig um ummæli Gunnars Arnar Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, vegna þess það bryti gegn samningi sem gerður var við starfslok Gunnars.

Aðspurður um hvort að röng fjárfestingarstefna hafi verið viðhöfð á fyrstu árum sjóðsins segir Jón Steindór að umhverfið hafi verið öðruvísi þá. "Færri aðilar voru á markaðnum sem veittu styrki og fjárfestu í fyrirtækjum af þessu tagi. Það var því meðvituð ákvörðun að koma víða við. Í seinni tíð hefur hins vegar margt breyst. Sjóðurinn er hættur að veita styrki eins og hann gerði áður, þó að það hafi skilað sér í góðum verkefnum eins og "auður í krafti kvenna" sem hafði jákvæð áhrif, og einnig fjárfestir hann nú í færri og stærri verkefnum," segir hann.

Aðspurður kveðst Jón Steindór vera bjartsýnn á framtíð sjóðsins, en hann bendir á að sýna verði þolinmæli. "Hjá áhættufjárfestingarsjóði geta ekki öll verkefni gengið upp og mörg verkefni taka lengri tíma en menn halda. Við höfum mörg dæmi um að fyrirtæki festi sig ekki í sessi fyrr en þau eru orðin 15-20 ára gömul, en innan við áratugur er síðan sjóðurinn var stofnaður, segir Jón Steindór.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.