Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, segir sjómenn félagsins hafi ekki verið sviknir um laun og vísar í að hásetahlutur á úthaldsdag uppsjávarskipa sé að meðaltali 135 þúsund krónur en 170 þúsund krónur á makrílvertíðum, án orlofs. Þess má geta að algengur tími í makrílveiðum íslenskra skipa er frá fimm til fimmtán daga að sögn þeirra sem til þekkja.

Launatölurnar auk frekari upplýsinga um verðmyndun aflans kemur fram í pistli Ægis Páls á heimasíðu Brims sem hann skrifar sem svar við því sem hann segir harðar ásakanir undanfarinna vikna um að verðlagning á uppsjávarfiski sem landað sé til eigin vinnslu hér á landi sé röng.

Þar er hann væntanlega að vísa í gagnrýni sem bæði hefur komið frá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness og varaforseta ASÍ , sem og frá Kára Stefánssyni sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi hefur svarað í pistli í Fréttablaðinu . Er þá sérstaklega verið að vísa í samanburð verðlagsstofu á hráefnisverði makríls milli Íslands og Noregs sem Fiskifréttir fjölluðu um á sínum tíma, en Sjómannasamband Íslands hefur fjallað ítarlega um kerfið .

Gagnrýnin hefur mikið til beinst að verðlagningu á makríl í viðskiptum milli skyldra aðila, þá upp úr sjó frá útgerð til vinnslu, en ólíkt því sem gerist í Noregi þá fer ekki allur fiskur hér á landi á markað heldur geta fyrirtæki gert langtímasamninga um afhendingaröryggi til viðskiptavina byggðum á áætlunum um veiðar og vinnslu. Er þá aflaverðið sem er grundvöllur skiptahluts til sjómanna ákvarðað samkvæmt reglum Verðlagsstofu skiptaverðs.

Einnig hefur formaður SFS, Jens Garðar Helgason lagt til umræðunnar og sagt að þar sé verið að bera saman epli og appelsínur, því gæðin á hráefninu milli miðanna við Ísland og Noreg sé svo ólíkt. Ægir Páll heggur í sömu kné í sínum pistli og bendir á að við verðlagningu uppsjávarafla til skipa Brims sé miðað við að 33% af áætluðu skilaverði sé fyrir frystar afurðir, en 55% af skilaverði bræðsluafurða, sem eru lægri.

„Hlutfallið hjá Brim hf. er að meðaltali 33,2% í frystingu og 55,3% í bræðslu árin 2012-2018 en þá er ekki tekið tillit til sölukostnaðar innan félagsins sem myndi hækka þetta hlutfall. Brim hf. hefur þá stefnu að verð til uppsjávarskipa félagsins laði til okkar góða sjómenn með góð laun jafnframt því að tryggja rekstrargrundvöll allra rekstrareininga; skipa, fiskvinnslu og bræðslu,“ segir Ægir Páll meðal annars í pistlinum.

„Í dag á Brim hf. þrjú erlend dótturfyrirtæki sem öllu eru í Asíu. Sala Brims hf. til þeirra á árinu 2019 var 11,6 milljónir evra sem er tæplega 5,5% af heildarsölu Brims hf. og þar af var sala á uppsjávarfisk 2,6 milljónum evra sem er 6,9% af heildar sölu frystra uppsjávarafurða. Auk þessa selur Brim hf. hráefni til tveggja dótturfyrirtækja á Akranesi sem nemur um 1,9% af heildar afurðasölu. Öll þessi viðskipti eru framkvæmd í samræmi við lög og reglugerðir um milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila. Fyrir árið 2019 seldi Brim hf. ekki neinar afurðir til erlendra dótturfélaga og/eða tengdra lögaðila erlendis. Af þessu ætti það að liggja ljóst fyrir að Brim hf. selur ekki afurðir á undirverði til tengdra aðila.“