Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fjallar um íslenskan fjármálamarkað og starfsemi FME í nýrri umfjöllun sinni um íslenskt efnahagslíf. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir í frétt á heimasíðu FME að sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu almennt í takt markmið FME. ,,FME fylgist vel með þeim áhættum sem eru fyrir hendi í kerfinu og kemur sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnendur fjármálafyritækjanna telji það ástæða til."

Jónas bendir ennfremur á í fréttinni að eins og glöggt kemur fram hjá sjóðnum þá er starfsemi FME orðin mjög alþjóðleg með eftirlitsábyrgð í öðrum löndum og samvinnu við systurstofnanir í fjölda ríkja. Hann segir að FME geri frekari álagspróf til viðbótar hinu reglubundna, sem m.a. tengist afleiddum áföllum. Hið formlega álagspróf sé í endurskoðun m.a. vegna alþjóðlegra eiginfjárregla sem gætu falið í sér að fleiri áhættuþætti verði prófaðir eins og rætt hafi verið við IMF.

Í skýrslunni kemur fram að krosseignarhald hafi verið minnkað og eignahald bankanna sé orðið mun gegnsærra en áður. ?Þetta er þáttur sem FME hefur lagt mikla áherslu á síðastliðin tvö ár og mun áfram sinna að kostgæfni," segir Jónas.


Í umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um Ísland bendir sjóðurinn á aukið vægi alþjóðlegs samstarfs FME við erlendar eftirlitsstofnanir þar sem hagsmunir íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis hafi vaxið hratt á stuttum tíma. Þá bendir IMF á að að alþjóðleg samvinna FME við erlendar eftirlitsstofnanir hafi vaxið mikið í takt við aukin umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja á erlendri grundu. IMF bendir á og fagnar að íslensk stjórnvöld hafi að markmiði að styrkja og efla enn frekar starfsemi Fjármálaeftirlitsins enda sé mikilvægt að FME vaxi áfram í takt við umfang og umsvif fjármálamarkaðarins.

Í umfjöllun sjóðsins kemur fram að íslensku bankarnir hafi unnið sig vel í gegnum þann óróa sem skapaðist í kjölfar neikvæðrar umræðu og efasemda um íslenska fjármálakerfið á síðasta ári. Þeir hafi brugðist rétt við áhyggjum markaðsaðila sem og ábendingum FME. Þá kemur fram að FME hafi bent á að þar sem bankarnir væru mjög háðir fjármagnsmörkuðum hvað varðar fjármögnun yrðu þeir ávallt viðkvæmari fyrir viðbrögðum á mörkuðum og mikilvægt væri að gæta að lausafjársstýringu bankanna og eignagæðum. Sjóðurinn bendir á að lausafjárstaða bankanna hafi batnað mikið frá því á síðasta ári. Einnig er tekið undir það viðhorf FME að íslensku bankarnir leggi aukna áherslu á að stýra nýjum og flóknari áhættum með skilvirkum hætti. Loks kemur fram að álagspróf FME sýni að bankarnir hafi fullnægjandi fjárhagsstöðu og geti staðið af sér veruleg áföll. Hins vegar taki prófið til frumáhrifa hugsanlegra áfalla en mæli ekki áhrif á seinni stigum. Voru aðilar sammála um að þróa bæri álagsprófin enn frekar.