Jónína Bjartmarz var fyrir hálfum mánuði kjörin formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, ÍKV. Jónína er flestum kunn fyrir feril hennar í stjórnmálum frá aldamótum til ársins 2007 þegar hún féll út af þingi í kosningum. „Ég var svo heppin að detta út af þingi 2007. Það er aldrei gaman að tapa kosningum en eftir á að hyggja þá var það eintakt lán ekki síst í ljósi þess sem við tók í íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi." segir hún.

Fyrir utan að gegna formennsku í ÍKV, fyrsta konan til þeirra verka, er hún framkvæmdastjóri fyrirtækisins Okkar konur í Kína – OK ehf. og ferðaskrifstofunnar Iceland Europe Travel en undanfarinn áratug hefur hún verið viðloðin við stórveldið í austri.

„Ég fór fyrst til Kína með öðrum fulltrúum forsætisnefndar Alþingis. Þá sagði ég við bóndann að ef við einhvern tíma fengjum tækifæri til að flytja og búa erlendis, þá skyldum við fara til Kína,“ en eiginmaður Jónínu er Pétur Þór Sigurðsson,lögmaður. „Síðan fór ég aftur til Kína í stóru forsetaheimsóknina og þegar ég datt út af þingi þá tók það fjölskylduna ekki nema um viku að ákveða að nú væri tækifæri til að fara út og fara í nám – ég og yngri sonur okkar. Upphaflega ætluðum við bara að vera í ár eða tvö en þetta varð upphafið að lengra Kína-ævintýri sem enn stendur.“

Skökk mynd í fjölmiðlum

Jónína vísar líka til þess að hún lesi stundum China Daily. „Það er svo sem ekki hlutlaus fjölmiðill en þar er oft opna með alls konar „smásögum" héðan og þaðan úr Kína. Þær eru oft dregnar upp sem stórfréttir frá landinu. Ég man að ég las einhvern tíma klausu um að hjón í Sjanghaí sem áttu erfitt um vik höfðu bundið barnið sitt við staur meðan þau voru að vinna. Svo liðu nokkrar vikur og ég las þetta í einhverjum íslenskum fjölmiðli eins og þetta væri einkennandi fyrir daglegt líf í Kína og um umönnun barna bara svo ég nefni lítið dæmi. Við sem höfum búið í Kína höfum allt aðra sýn. Enginn þeirra sem við hittum að máli töluðu um að Kína hefði ráðist inn í Tíbet,“ segir Jónína og segir Tíbeta sem þau hafi hitt hafa rætt nokkuð frjálslega um þessi málefni.

„Kína frelsaði þá undan lénsveldinu því þarna bjó fólk í hálfgerðu þrælahaldi fámenns hóps landeigenda, við sult og seyru og grimmilegar líkamsrefsingar. Okkur var m.a. bent á að stjórnvöld í Kína hafa byggt upp skólakerfið, tryggt jafnrétti til náms og byggt upp alla innviði. Þeir hefðu að vísu viljað halda sjálfræði yfir auðlindum, en það væri ekki bæði haldið og sleppt. Svo heyrði ég fyrir tilviljun ekki fyrir löngu um þann forgang sem minnihlutahópar í Kína, þar með talið í Tíbet, hafa til náms. Ég hváði því ég hafði aldrei heyrt af þessu enda ekki nein umræða um þetta innanlands. Myndin sem er dregin upp hérna heima er öll önnur.“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast bdf-útgáfu blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .