Skattur á slitastjórnir þrotabúa föllnu bankanna er tímabundinn skattur. Í því ljósi er einkennilegt að nota tímabundnar tekjur ríkissjóðs til að lækka tekjuskatt sem er varanlegri, að mati Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar. Hann var til andsvara á Alþingi í dag eftir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælti fyrir tekjuaðgerðum fjárlagafrumvarps næsta árs og mælti fremur með því að tímabundnar tekjur ríkissjóðs af skattlagningu á slitastjórnir verði nýttar til uppbyggingar innviða sem hafi látið á sjá eftir niðurskurð síðustu ára.

„Við vonumst held ég öll til að þau verði ekki ævarandi,“ sagði Guðmundur og vísaði til þrotabúa bankanna.

Miðað er við það í fjárlagafrumvarpinu að bankaskattur á fjármálafyrirtæki í slitameðferð skili ríkissjóði 11,3 milljörðum króna á næsta ári. Fyrirtækin hafa hingað til verið undanþegin bankaskattinum.

Steingrímur J. Sigfússon , þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í síðustu viku að skoðað hafi verið á árunum 2009 og 2010 að setja skatt á þrotabú föllnu bankanna. Það hafi hins vegar ekki talist gerlegt, m.a. þar sem kröfuhafar eigi lögvarða kröfu á þau, og skattur af þeim sökum aldrei lagður á þau.

„Þetta var skoðað og lagt til hliðar sem algerlega óframkvæmanlegt á árunum 2009 og 2010  vegna þess að skattaandlagið var ekki til,“ sagði Steingrímur.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, mótmælti skattlagningu á fjármálafyrirtæki í slitameðferð í gær. Hún sagði í samtali við RÚV ljóst að sumar af skuldunum séu enn umdeildar og skattstofninn því óljós. „Þetta félag er ekki fjármálafyrirtæki í þeim skilningi [...] heldur er eingöngu verið að gera upp eignir, ráðstafa eignum til þess að standa skil á þessum kröfum,“ sagði hún.