Dæmi er um að leigusalar bjóði fólki að leigja húsnæði án þess að gefa leigutekjurnar upp til skatts. Skattaundanskotið felst m.a. í því að leigutakar borga hærra verð en sagt er frá í þinglýsingu. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í samtali við Morgunblaðið í dag undanskot sem þetta hafa löngum verið vandamál í of mörgum tilvikum.

Skúli Eggert segir eftirlit með skattskilum á leigumarkaði geta verið örðugt þar sem margir leigja aðeins út eina og eina íbúð. Meira eftirlit er hins vegar með þeim umfangsmeiri. Hann bendir á að skattayfirvöld hafi af því áhyggjur að þetta geti orðið viðvarandi vandamál nema takist með einhverjum hætti að fá leigutaka til að sjá ávinning í því að gefa tekjur upp til skatts, s.s. í gegnum húsaleigubótakerfið.