Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að leggja aftur fram frumvarp sitt um að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum úr skattaskrám og birtingu þeirra. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Meðal annars yrði ríkisskattstjóra þannig óheimilt að taka saman lista yfir þá skattgreiðendur sem greiða mestan skatt og senda á fjölmiðla, en einnig þyrfti heimild viðkomandi skattaðila fyrir opinberri birtingu upplýsinga úr skattskránni. Þá mun hver einstaklingur aðeins geta fengið upplýsingar um þrjá aðra gjaldendur úr skattskrá.

„Ég tel nauðsynlegt að það séu tekin af öll tvímæli um það, að þetta sé ólögmætt eins og þetta er gert í dag. Það er engin venja sem myndar rétt fyrir opinbera starfsmenn að brjóta lögmæltan trúnað. Það er ekki hægt að vísa til venju fyrir því. Engin lagaheimild er fyrir því að skatturinn sjálfur vinni svona lista fyrir fjölmiðla,“ segir Sigríður í samtali við Morgunblaðið.

Sigríður segir að þar fyrir utan sé talað um í lögum að það megi birta upplýsingar úr skattskránni, en ekki álagningarskránni. „Skattskráin hefur réttari upplýsingar, þannig að það er alveg út í hött að það sé verið að fóðra fjölmiðla með þessum upplýsingum, sem þeir vita að eru í mörgum tilvikum rangar,“ segir hún.