Veitingastaðurinn Borðið við Ægisíðu hefur fengið höfnun frá úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál á kæru sinni vegna synjunar byggingarfulltrúans í Reykjavík á vínveitingaleyfi.

Synjunin olli algerum forsendubresti fyrir kaupum á húsnæði veitingastaðarins og rekstri að því er fram kemur í kærunni segir í frétt RÚV um málið.

Fengu jákvæða umsögn í byrjun

Er bent á það að gefin hafi verið jákvæð umsögn þegar sótt var um að veitingastaðurinn uppfyllti skilyrði fyrir svokölluðum flokki II fyrir rúmum tveimur árum, en honum fylgir vínveitingaleyfi og heimild til lengri opnunartíma.

Rakel Eva Sævarsdóttir meðstofnandi og eigandi að Borðinu segir frá því á facebook síðu sinni að málið sé að sínu mati einn stór brandari og risastórt klúður.

Skpulagsklúður að mati eiganda

„Að mínu mati er þetta mismunun og ekkert nema skipulagsklúður að Ægisíðan skuli ekki vera skilgreind sem aðalgata!,“ segir Rakel Eva, en ein af forsendum fyrir að staður sé í flokki II sé að hann sé við aðalgötu.

„Eins og kemur fram í kærunni frá okkur hefur verið starfræktur rekstur í þessu rými síðan húsið var byggt. Það er nokkuð ljóst að þetta viðmót er ekki hvetjandi og dregur úr framkvæmdagleði og sköpun, sem er mjög leitt!“

Borgin viðurkennir að upphafleg umsögn hafi verið óheppileg

Þó alltaf hafi verið sá fyrirvari á umsögninni að grendarkynna þyrfti hana viðurkennir Reykjavíkurborg að óheppilegt sé að tekið hafi verið jákvætt í umsögnina á sínum tíma.

Veitingastaðir í flokki II séu ekki leyfðir nema við skilgreindar aðalgötur og nærþjónustukjarna. Byggingarfulltrúinn er samkvæmt úrskurði nefndarinnar bundinn af því að svo eigi ekki við um húsnæði Borðsins og því sé kærunni hafnað.